Hundruð fyrirtækja fengið hraðari aðgang að fjármagni hjá Kríta
Í kjölfarið á fjögurra milljarða króna fjármögnunarsamningi við evrópska sjóðinn WinYield General Partners hafa útlán Kríta þrefaldast
Stefán Jökull Stefánsson, stjórnarformaður Kríta.
Kríta gekk frá fjögurra milljarða króna fjármögnunarsamningi við evrópska sjóðinn Win Yield General Partners fyrir sex mánuðum. Stefán Jökull Stefánsson, stjórnarformaður Kríta, segir að eftir að fjármögnunin varð að veruleika hafi hundruð fyrirtækja fengið hraðari aðgang að fjármagni fyrir sinn rekstur. Útlán Kríta hafa þrefaldast að sögn Stefáns og að meðaltali bætast tvö ný fyrirtæki við þjónustuna á hverjum degi.
Einsetjum okkur að vera sterk í hraða, þægindum og þjónustu
,,Til að mæta þessum vexti höfum við þurft að endurskipuleggja margt innanhús, ráða fleira starfsfólk, fínstilla ferla, skerpa á tækninni og hraða ákvarðanatöku. Við erum lítið fjártæknifyrirtæki í tjörn með rótgrónum fjármálastofnunum og sem vinnur ekki alltaf slaginn um lægsta verðið, en einsetjum okkur að vera sterk í hraða, þægindum og þjónustu," segir Stefán.
Byrjað að bjóða upp á stærri fyrirtækjalán
Hann segir að Kríta hafi byrjað að bjóða upp á stærri fyrirtækjalán en áður þar sem heimild lána til fyrirtækja er byggð á síðasta ársreikningi. ,,Þetta er að virka mjög vel fyrir fyrirtæki og þau hafa tekið vel í þetta. Þessi vegferð undanfarna sex mánuði hefur jafnframt opnað fyrir samtal við fjölda stofnenda og stjórnenda íslenskra fyrirtækja og veitt okkur dýrmæta innsýn í rekstur þeirra. Það er augljóst að lítil nýsköpun hefur átt sér stað í lánaþjónustu til fyrirtækja og því erum við með fleiri nýjar vörur í lánaþjónustu í farvatninu sem eru í þróun og fara á markað síðar í haust. Það verður spennandi að sjá hvernig markaðurinn tekur við því," segir hann ennfremur.
Viðskiptavinir Kríta eru m.a. fyrirtæki í ferðaþjónustu, heildverslun, matvælaframleiðslu sem og fyrirtæki í innflutningi, ráðgjöf og byggingastarfsemi.